Erpur Snær og Tóti lundi eiga það sameiginlegt að vera sérfræðingar í vistfræði lunda, en óneitanlega frá ólíku sjónarhorni.
Nafn: Erpur Snær Hansen
Aldur: 58
Starf: Forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi: Vestmannaeyjar
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Ég, enda er það eitt aðaláhugamálið og virkar vel til að fá pásu frá vísindunum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ákvað að verða doktor í líffræði 14 ára, en heilaskurðlæknir sem krakki, var heillaður af mannshuganum.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Enga, les eiginlega bara vísindi, lítið lestarúthald eftir þá iðju.
Hvað á að gera um helgina? Klára að einangra loftið heima.
Áttu gæludýr? Já við eigum tvær kisur.
Kaffi eða te? Kaffi. Ein albestu kaup mín á lífsleiðinni var góð expresso vél sem við notum grimmt.
Hver er þín helsta líkamsrækt? Jóga, en stunda eiginlega enga líkamsrækt lengur, líklega af leti.
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Hef nokkra reynslu af skrítnum mat, snákur, pöddur í nammiformi, osfr.
Sumar, vetur, vor eða haust? Sumar.
![](https://hfsu.is/wp-content/uploads/2025/02/ESH-Holumyndavel-768x512.jpg)
Áttu þér uppáhalds vorfugl? Nei, þeir koma hver af öðrum og gleðja hjartað, nema tjaldurinn og stelkurinn, sem eru óþolandi hormónafylltir hávaðabelgir.
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlónið) á landinu? Seljavallalaug.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndirðu fara? Er á leið þangað, Tasmanía 2026.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni við umhverfið? Með rannsóknum á sjálfbærni veiða og fræðslu um magnaða náttúru Íslands.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna? Fylgja hjartanu, áhuginn er sterkasti drifkrafturinn þegar úthaldið fer að dvína vegna langvarandi álags.
Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland?
Mínar höfuðstöðvar eru í Vestmannaeyjum og sjófuglarannsóknir þar. Ég bý í stærstu lundabyggð í heiminum á Heimaey auk þess sem í Eyjum verpa þrjár tegundir næturfýlingja sem lengi hafa heillað mig með sérkennilegum lifnaðaráttum sínum.
![](https://hfsu.is/wp-content/uploads/2025/02/received_2647583672184608-1024x768.jpeg)
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni?
Sjófuglar eru áhugaverðir um margt en þeir eru jafnframt sá hópur fugla sem mest hefur fækkað einna mest á heimsvísu. Það auðveldar að vinna með þá þar sem þeir verpa flestir í byggðum. Jafnframt eiga þeir sameiginlega sérhæfingu að lifa á sjávarfangi, eru í raun bara bundnir af landi til að verpa, en eiga sér ævintýralegt líf þess utan, sem mín kynslóð er svo heppin að geta nú rannsakað í fyrsta sinn í sögunni með smáum rafeindatækjum og öðrum nýungum, í raun er um yfirstandandi vísindabyltingu að ræða í flestum skilningi.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna?
Ég hef heimsótt yfir 13 byggðir umhverfis landið, tvisvar á sumri í 15 ár. Þessir leiðangrar gefa manni ótrúlega víðtæka snertingu og um leið virðingu fyrir umhverfinu sem maður er að reyna að skilja. Uppgvötanir á hvaða þættir valda breytingum í þessum algengasta fugli landsins, hvernig og af hverju? Einnig kynnist maður fjölmörgu skemmtilegu fólki við þessa iðju.
![](https://hfsu.is/wp-content/uploads/2025/02/received_266882814146097-1024x683.jpeg)
![](https://hfsu.is/wp-content/uploads/2025/02/received_264202321501856-300x225.jpeg)
Segðu okkar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli.
Aðalverkefnið er vistfræði lunda. Hvað stýrir og hvernig stjórnast breytingar á stofnstærð? Þetta er langtímaverkefni þar sem ég er að byggja upp fjölþættann þekkingargrunn til að svara áhugaverðum spurningum um sampil umhverfis og stofnbreytinga.
Grunnurinn í þessum rannsóknum varð til þegar við fundum að um 72% af breytileika í stofnstærð lunda síðustu 140 ár „skýrist“ af sjávarhita og fylgir svonefndu AMO mynstri þar sem skiptast á hlý- og kuldaskeið sem standa í um 35 ár. Hiti hefur margvísleg bein og óbein áhrif á vistkerfi sjávar, en er líka fylgibreyta annara þátta. Í raun má skipta þessu í tvennt, á sumrin stjórnar fæðuframboð ungaframleiðslu, en að vetri lífslíkum.
Við höfum kortlagt vetrar- og fellistöðvarnar með dægurritum sem varð hluti af stóruppgvötun á tilvist „hot spot“ í Norður Atlanshafsstraumnum þar sem milljónir sjófugla búa við fæðugnótt, og skýrir mikla stofnstærð þessara sjófuglategunda. í kjölfar hlýnunar 1995 varð 50% samdráttur þarna á einni aðalfæðutegundinni sem er náttlampi og haldist síðan. Lundi er ófleygur í um 45 daga á þessum slóðum í febrúar-mars og getur ekki flúið fæðuskortinn. Að sumarlagi höfum við beint sjónum að sandsílinu sem er aðalfæðan, og tengslum þess við sjávarhita. Stofnstærð lunda lækkar um 55% við 1°C frávik frá meðalárshita, og höfuðtilgátan að á hlýskeiðum hægi á vexti ungsíla (sem klekjast snemma vors) yfir sumarið, en auki efnaskipti veturinn eftir þegar uppsafnaður fituforði er rýr, að þetta samspil drepi þau úr hungri áður en að fæðuframboð eykst vorið eftir fyrsta veturinn.
Óþekkt er hvernig kuldaskeið verka á sílið, en almennt er viðkoma lunda góð þá, en slæm á hlýskeiðum. Við höfum einnig uppgvötvað mikla seinkun (18 daga) sem hefur orðið á varptíma í Vestmannaeyjum frá 2005, og því seinna, því færri fuglar verpa. Þessi samdráttur kom til viðbótar á neikvæðum áhrifum hlýnunar á viðkomu og hefur ekki gerst áður, amk frá 1937. Það athyglisverða er að tímasetningu vorblóma þörunga hefur seinkað mikið samhliða. Við erum núna að vinna tvö verkefni þessu tengdu. 1. Að reikna út tímasetningu þörungablómans, auk hrygningar- og klaktíma síla (sem eru hitastýrð) eins langt aftur og tiltæk veðurgögn (mögulega 1878, en 1949 í fyrstu lotu) til þess að prófa þá tilgátu að síðbúinn vorblómi valdi verulegum afföllum á sílalirfum, og endurspeglast í lélegri viðkomu lunda vegna fæðuskorts.
Líkur eru á að breytt vindafar, aukinn tíðni og styrkur sunnanvinds eigi stóran hlut að máli (brýtur upp hitalagskiptingu í hafi að vori sem er forsenda blómans), og mögulega að einhverju leyti 25% lækkun kísilstyrks (sem takmarkar vöxt kísilþörunga sem aftur marka upphaf vorblómanns). 2. Rannsókn á hvað stjórni því að fuglar sleppi að verpa, en slíkt mjög algengt á meðal allra sjófuglategunda, en stjórnun er að miklu leyti óþekkt. Við höfum fylgst með varpi í yfir þúsund varpholum í 15 ár og sést að stór áhrifaþáttur er varpárangur árið á undan, ef varp misferst þá eru miklar líkur á að varpi sé sleppt árið eftir og öfugt. Í Vestmannaeyjum hefur meirihluti varpfugla sleppt varpi eftir slæm ár á undan og skýrir stærsta hluta lækkunar á viðkomu (ungi/holu), og umfram varpárangur. Við höfum mismunandi sjávarvistkerfi umhverfis landið sem endurspeglast í mismunandi tíðni þessarar varpslaufunar.