Háskólafélag Suðurlands er ungt að árum, var stofnað fyrir fimm árum, í desember 2007. Í apríl 2009 fékk félagið samastað, í Glaðheimum á Selfossi. Starfsemin hefur dafnað jafnt og þétt, og það á einnig við um sambýlinga þess til þessa; Fræðslunet Suðurlands, Markaðsstofu Suðurlands og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands. Þessar stofnanir hafa nú tekið undir sig stökk og flutt aðsetur sitt að Tryggvagarði, þar sem skólahald í nýjum barnaskóla hófst síðvetrar 1945. Það er kannski tímanna tákn að Háskólafélagið hefur nú náð þeim þroska að flytja sig úr elsta leikskóla bæjarins í barnaskólann.
Stofnanirnar sem nú flytja sig að Tryggvagarði eru, auk Háskólafélagsins, Fræðslunet Suðurlands, Birta – Starfsendurhæfing, Markaðsstofa Suðurlands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands, Réttindagæslumaður fatlaðra á Suðurlandi og starfsmaður Náttúrustofa Vestfjarða. Rreiknað er með að fleiri þekkingarfyrirtæki og/eða stofnanir eigi eftir að bætast í hópinn á næstunni. Þá tekur aðstaða fjarnema stakkaskiptum, en nú geta þeir t.d. gengið að lesaðstöðu vísri alla daga, og kvöld, vikunnar.
Það kom svo í ljós að dagsetning þessara stakkaskipta í sögu Háskólafélagsins verður líklega ógleymanleg; 20.12. 2012.
Gleðileg jól !