Í lok nóvember sl. var skilað inn formlegri umsókn með ítarlegri greinargerð um aðild Katla Geopark (Katla jarðvangur) að evrópsku samtökunum European Geoparks Network. Umsóknin var unnin undir forystu Atvinnuþróunarfélags Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands með dyggum stuðningi sveitarfélaganna þriggja, Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands og fleiri aðila.
Í lok mars var síðan haldinn fundur í evrópsku samtökunum European Geoparks Network en þar var meðal annars fjallað um aðildarumsókn Katla Geopark Project að samtökunum. Ákveðið var að tveir sérfræðingar samtakanna (frá Grikklandi og Ítalíu) heimsæki svæðið á komandi sumri til að taka út svæðið og starfsemina. Skoðaðir verða ákveðnir þættir, s.s. skipulag og stjórnun verkefnisins, ferðaþjónusta, fræðslustarfsemi, sjálfbærni og þátttaka samfélagsins í verkefninu. Þetta eru frábærar fréttir fyrir svæðið og heldur þeim möguleika opnum að Katla jarðvangur geti orðið fullgildur meðlimur samtakanna síðar á árinu.