Mánudaginn 30. maí 2011 hófst alþjóðlega sumarnámskeiðið um náttúruhamfarir, Natural Catastrophes, sem haldið er í samvinnu Háskólafélags Suðurlands og Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands á Selfossi í jarðskjálftaverkfræði. Haldin var stutt setningarathöfn í húsnæði rannsóknarmiðstöðvarinnar þar sem Ragnar Sigbjörnsson forstöðumaður miðstöðvarinnar, Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastóri Háskólafélagsins, Björgvin G. Sigurðsson 1. þingmaður Suðurlands, Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar og Sólveig Þorvaldsdóttir verkfræðingur og aðalkennari námskeiðsins fluttu ávörp. Alls eru 24 þátttakendur á þessu þriggja vikna námskeiði sem er á meistarastigi, er vottað af Háskóla Íslands og metið til 7,5 ECTS eininga. 22 þátttakendanna koma erlendis frá; Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Kanada, Saudi Arabíu og USA. Erlendu þátttakendurnir dvelja á meðan námskeiðinu stendur á Hótel Fosstúni en kennslan fer fram í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurlands auk þess sem fjórar námsferðir um Suðurland og Suðurnes eru fléttaðar inn í kennsluna. Námskeiðinu lýkur með prófi laugardaginn 18. júní.
Þátttaka í námskeiðinu fór fram úr björtustu vonum en erlendu þátttakendurnir borga rúmlega 200.000 kr. hver fyrir námskeiðið og dvölina í Fosstúni. Hrafnkell Guðnason verkefnisstjóri Háskólafélagsins hafði umsjón með markaðssetningu þess, m.a. á Facebook og Google, en auk þess veitti Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands dygga aðstoð í þessu sambandi auk tengslanets sérfræðinga Jarðskjálftamiðstöðvarinnar. Annar íslensku þátttakandanna á námskeiðinu er Sigurjón Valgeir Hafsteinsson jarðfræðingur og starfsmaður Háskólafélagsins en hann er Sólveigu jafnframt innan handar við undirbúning og framkvæmd námskeiðsins, m.a. varðandi undirbúning námsferðanna.
Í ágúst verður svo annað meistaranámskeið á Suðurlandi í samvinnu Háskólafélagsins og Háskóla Íslands en það er námskeið um jarðfræðitengda ferðamennsku, Geotourism. Heimsþekktur fræðimaður á því sviði, Ross Dowling, kemur til landsins og verður aðalkennari á því námskeiði en það verður haldið að mestu leyti á vettvangi Kötlu Jarðvangs (Katla Geopark), en hann nær yfir Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp.
Davíð forstöðumaður Markaðsstofu Suðurlands, Hrafnkell verkefnisstjóri Háskólafélags Suðurlands, Steingerður formaður stjórnar Háskólafélags Suðurlands og tveir þátttakendur frá Hollandi.
Ásta bæjarstjóri, Benedikt jarðskjálftaverkfræðingur og Sigurjón Valgeir jarðfræðingur, ásamt erlendum þátttakendum í bakgrunni.