Skyrslur

Ársreikningur 2018 og aðalfundur 2019

Fundargerð 11. aðalfundar Háskólafélags Suðurlands ehf fimmtudaginn 9. maí 2019 á Hótel Selfossi.

Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar félagsins setti fund og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 56,7%  hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur.

 

Sveinn bar fram tilllögu stjórnar um að hann gegndi starfi fundarstjóra á aðalfundinum og að Ingunn Jónsdóttir ritaði fundargerð. Samþykkt samhljóða og gengið var til dagskrár.

 

  1. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði.
  2. Ársreikningur 2018, ásamt skýrslu endurskoðanda. Framkvæmdastjóri fór yfir niðurstöður ársreikningsins. Tap ársins nam um 0,3 millj.kr. en handbært fé í lok ársins var um 41,4 millj.kr.

Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar vakti athygli á mikilvægi þekkingarsetra eins og Fjölheima. Lýsti ánægju sinni með nýja stefnumótun félagsins, mikilvægt væri að efla rannsóknir og aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Fjölheimar (Sandvíkursetur) væri sveitarfélaginu dýrt í rekstri en sveitarfélagið væri tilbúið til þátttöku í vinnu um hvernig best væri að vinna áfram með þessi mál. Sigurður benti á ákvæði í ríkisstjórnarsáttmálanum og byggðaáætlun um fjölgun starfa án staðsetningar. Ljóst sé því að í þessu felist mikil tækifæri fyrir landsbyggðina. Varðandi kostnað við Fjölheima/Sandvíkursetur benti hann á að þar væri kannski fyrst og fremst um að ræða vanrækslu sveitarfélagsins í viðhaldi hússins fyrr á árum. Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS upplýsti að Byggðastofnun ynni nú að könnun á tiltækri fjarvinnuaðstöðu vítt og breitt um landið.

Ársreikningurinn og skýrslan voru borin upp til afgreiðslu og samþykkt samhljóða.

  1. Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna taps eru arðgreiðslur og framlög í varasjóð óheimilar.
  2. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra. Samþykkt tillaga sem byggir á samþykkt aðalfundar SASS 18.-19. október 2018 þ.e. 3% þingfararkaups fyrir hvern fund en 4 % til formanns.
  3. Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum
  4. Kjör stjórnar og endurskoðanda. Sex núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, þ.e. þau Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson, sömuleiðis var gerð tillaga um Olgu Lísu Garðarsdóttur sem kemur til baka úr námsleyfi í sumar. Þá var gerð tillaga um eftirtalda í varastjórn: Eyþór Ólafsson, Örnu Ír Gunnarsdóttur, Helga Kjartansson, Evu Björk Harðardóttur, Lilju Einarsdóttur, Ágúst Sigurðsson og Einar Bjarnason. Þessar tillögur voru báðar samþykktar samhljóða. Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðun Guðjónsson hjá KPMG áfram sem endurskoðanda félagsins en jafnframt verði leitað leiða til að lækka kostnað við endurskoðun ársreiknings fyrir næsta aðalfund.
  5. Önnur mál. Engin mál undir þessum lið og Sveinn sleit fundi kl. 13:55. – Í beinu framhaldi af fundinum var haldið málþingið Að efla verkvitið – Staða og framtíð iðn-, verk- og tæknimenntunar á Suðurlandi.

Á aðalfundinn mættu fulltrúar Ásahrepps, Bláskógabyggðar,  Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Hornafjarðar (í fjarfundi) og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir (í fjarfundi), Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig starfsmennirnir Guðlaug Ósk Svansdóttir, Ingunn Jónsdóttir, Magnús St Magnússon og Sigurður Sigursveinsson.