Þátttakendum Atvinnubrúar bauðst að heimsækja Listasafn Árnesinga í Hveragerði, miðvikudaginn 6. nóvember sl.
Listasafn Árnesinga er samstarfsaðili Atvinnubrúar en unnið hefur verið ötullega að því að kynna verkefnið í haust með ýmsum hætti. Kristín Scheving safnstjóri bauð okkur í heimsókn miðvikudaginn 6. nóvember og leiddi okkur í gegnum sögu safnsins en Listasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga. Öll sveitarfélögin í Árnessýslu eiga aðild að safninu sem á þó upphaf sitt að rekja til gjafar frúar Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona hennar á árunum 1963 – 1986.
Það kostar ekkert að heimsækja safnið sem staðsett er við Austurmörk 21 í Hveragerði og geta öll fundið eitthvað við sitt hæfi. Sýningarnar eru fjölbreyttar og er hægt að finna verk bæði eftir íslenska og erlenda listamenn, einkasýningar og samvinnuverkefni svo eitthvað sé nefnt. Börn eru velkomin og er aðstaða til þess að setjast niður til vinnu, náms eða funda í húsinu.


Það er óhætt að segja að sjón sé sögu ríkari og auðvitað alltaf skemmtilegast að ganga inn í sýningarrýmin og upplifa hljóð, ljós og mynd á eigin skinni. Þeir sem eru ekki búsettir í nálægð við Hveragerði eða eiga erfitt um vik geta þó notið verkanna á annan hátt. Hægt er að skoða safneign Listasafns Árnesinga með þvi að smella hér.
Að auki er nú hægt að ganga í gegnum safnið í þriðju vídd og ferðast um sýningar þess með hjálp grafíkur. Endilega kíkið í heimsókn hér.
Við sendum Kristínu og starfsmönnum Listasafnsins innilegar þakkir fyrir hlýjar móttökur og hvetjum öll til þess að heimsækja safnið og njóta lystisemda þess.