Þann 29. mars sl stóð samstarfshópurinn Norðanátt / hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi fyrir fjárfestahátíð á Siglufirði í annað sinn, í þeim tilgangi að leiða saman frumkvöðla og fjárfesta með von um samstarf og samvinnu þeirra á milli.
Í fyrra fengu norðlensk frumkvöðlaverkefni tækifæri til þess að kynna sig fyrir fjárfestum, en að þessu sinni var ákveðið að bjóða jafnframt frumkvöðlum úr öðrum landshlutum að senda inn umsóknir til þátttöku. Svo fór að þrjú sunnlensk verkefni voru valin, þ.e. Vínland vínekran, Melta og Frostþurrkun ehf. Til þess að styðja við bakið á þeim ákváðu fulltrúar Háskólafélagsins og Orkídeu að fara norður og hvetja sitt fólk til dáða.
Eins og við var að búast stóðst hátíðin allar væntingar sem hin glæsilegasta, og umgjörðin eins og best verður á kosið. 14 verkefni fengu tækifræi til þess að kynna hugmyndir sínar og áttu í framhaldi spjall við fjárfesta og aðra áhugasama. Það var samdóma álit að svona vettvangur sé gríðarlega mikilvægur fyrir verkefni í leit að fjárfestingum þar sem þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðar samvinnu.
Vinna Norðanáttar fyrir frumkvöðla er eftirtektarverð á landsvísu og driffjöður fyrir aðra landshluta til þess að vinna í sömu átt.