Fimmtudaginn 13. ágúst var haldinn kynningarfundur í Leikskálum í Vík um hugsanlega stofnun jarðfræðigarðs (geopark) í Vestur-Skaftafellssýslu og eystri hluta Rangárvallasýslu. Háskólafélag Suðurlands beitti sér fyrir sérstöku átaksverkefni í fyrra varðandi eflingu atvinnulífs á þessu svæði og hefur hugmyndin um jarðfræðigarð verið þróuð á þeim vettvangi.
Rögnvaldur Ólafsson forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands stýrði fundinum en hann er bæði stjórnarmaður í Háskólafélaginu og einnig í verkefnisstjórn átaksverkefnisins.
Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur og forstöðumaður Surtseyjarstofu flutti erindi um jarðfræði svæðisins og stöðu þess í jarðfræði Íslands og tengslum þess við jarðfræði Norður-Atlantshafsins varðandi landrek og gosvirkni. Að hennar mati er svæðið einstakt hvað varðar fjölbreytni eldstöðva og gosefna ásamt óvenju miklum jökulmenjum af ýmsu tagi. Þannig eru t.d. móbergshryggir myndaðir við sprungugos undir jökli á síðari hluta ísaldar áberandi í landslaginu norðan Mýrdalsjökuls en slíkir hryggir finnast ekki annars staðar á jörðinni og eru því einstakir á heimsvísu.
Patrick Mc Keever jarðfræðingur og fulltrúi samtaka jarðfræðigarða flutti síðan tölu um hugtakið jarðfræðigarð, tilurð þessarar starfsemi og hvernig hún hefur þróast. Samtök evrópskra jarðfræðigarða voru stofnuð árið 2000 af fjórum svæðum en nú tilheyra samtökunum 34 svæði í þrettán Evrópuríkjum. Þá hafa samtökin gert samkomulag við UNESCO, eina af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þess efnis að sjá um gæðavottun á sambærilegum görðum annars staðar í heiminum. Alls eru jarðfræðigarðarnir nú 57 með vottun UNESCO og fer ört fjölgandi. Umsóknarferli í þessu sambandi er a.m.k. eitt ár og ef svæði er samþykkt sem jarðfræðigarður er það til fjögurra ára í senn. Gæðakröfur eru ríkar í þessu sambandi og nokkur dæmi þess að jarðfræðigarðar hafi misst vottun, a.m.k. tímabundið.
Patrick Mc Keever lagði mikla áherslu á það í máli sínu að jarðfræðigarðar byggðust ekki einungis á merkilegri jarðfræði heldur samspili hennar við nýtingu á sjálfbæran hátt, þ.e. með langtímasjónarmið í huga. Mörg dæmi væru um að atvinnulíf á svæðum jarðfræðigarða hefðu eflst með tilkomu þeirra, sérstaklega á sviði ferðamennsku og fræðslu hvers konar í því sambandi. Ein af forsendum þess að svæði sé samþykkt sem jarðfræðigarður er að fyrir liggi ásetningur íbúanna um að gera jarðfræði og menningararfi svæðanna hátt undir höfði þannig að fleiri nái að njóta þessara auðlinda án þess að spilla þeim. Hvað kostnað varðar kom fram að æskilegast væri að byggja sem mest á þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu og ýta undir samvinnu aðila, t.d. ferðaþjónustuaðila og sveitarstjórna. Þá er mikilvægur óbeinn stuðningur Samtaka jarðfræðigarðanna með því að miðla reynslu milli svæða.
Í umræðum að loknum framsöguerindum kom fram að í dag einkennist ferðamennska á svæðinu m.a. af því að beina ferðamönnum á tiltekna ferðamannastaði með sérstaka náttúru en mikið skorti á að ferðamaðurinn fái útskýringar og kynningu á ýmsu í náttúru staðanna. Starfsemi jarðfræðigarðanna einkennist hins vegar af áherslu á þessa þætti. Þetta skapar störf, ferðamaðurinn dvelur lengur á svæðinu og skilar því meiru inn í hagkerfið á staðnum. Ítarlegar samtímaheimildir um Skaftáreldana geta t.d. verið óþrjótandi uppspretta tengingar mannlífs í héraðinu og þessara einstöku náttúruhamfara sem einnig höfðu áhrif langt út fyrir landsteinana. Áherslur af þessu tagi í ferðamennsku eru ekki útilokandi heldur miklu fremur viðbót við það sem fyrir er. Annað sem einkennir starfsemi jarðfræðigarðanna er að lögð er áhersla á það að þjálfa íbúana sjálfa til að túlka jarðfræðina og söguna fyrir ferðamönnum og öðrum gestum garðsins. Markaðssetning matvæla og handverks úr héraði hefur einnig víða notið mjög góðs af samvinnu við jarðfræðigarða.
Nú er það heimamanna að taka afstöðu til þess hvort stefna beri að stofnun jarðfræðigarðs á svæðinu og eftir atvikum að leita eftir stuðningi í því sambandi. Stefna Háskólafélagsins er að leitast við að vinna með styrkleika svæðisins. Miðsuðurland og Suðausturland hefur búið við fólksfækkun og fremur einhæft atvinnulíf á undanförnum áratugum en á fundinum kom skýrt fram að á sviði jarðfræðitengdrar ferðamennsku gæti svæðið haft lykilstöðu og tekið forystu á þessu sviði.
Sigurður Sigursveinsson