Kynningarfundur um verkefnið var haldinn fimmtudaginn 3. apríl í Fjölheimum.
Bókasafn Árborgar, Fræðslunetið og Háskólafélag Suðurlands hafa tekið höndum saman og hafa hafið innleiðingu á verkefninu Gefum íslensku séns. Verkefnið var upphaflega sett af stað við Háskólasetur Vestfjarða þar sem það hefur náð frábærum árangri og tegir nú anga sína til okkar í Árborg.
Verkefnið snýst fyrst og fremst að því að opna heim íslenskunnar fyrir íbúum af erlendum uppruna og veita þeim tækifæri til þess að eiga samskipti á íslensku óháð getu og án fordóma. Hver sá sem vill tala íslensku þarf að fá tækifæri til þess að tjá sig á því getustigi sem einstaklingurinn býr yfir og þurfum við sem tölum málið að veita þeim tækifæri og búa svo um að viðkomandi finni til meira öryggis.
Fyrirtækjum á svæðinu hefur verið boðin þátttaka í verkefninu en það fer svo eftir umfangi hvernig þátttökuaðilar útfæra verkefnið innan sinna skipulagsheilda. Stjórnendur skoða nú hvernig verkefnið getur mætt starfsfólki af erlendum uppruna sem og þjónustuþegum sem sækja vöru og þjónustu og vonumst við til þess að hægt verði að upplýsa formlega hvaða fyrirtæki í Árborg munu taka þátt fljótlega eftir páska.
Tveir viðburðir verða haldnir í tengslum við verkefnið.
Fimmtudaginn 8. maí verður frasamessa á Bókasafni Árborgar á Selfossi þar sem við munum kynna fyrir íbúum af erlendum uppruna hefðbundna íslenska frasa eins og jæja, þetta reddast og fleira skemmtilegt.
Fimmtudaginn 2. júní ætlum við svo á stefnumót við íslenskuna þar sem við æfum okkur að tala og hlusta á sama tíma og við kynnumst mismunandi menningarheimum.
Við munum auglýsa og láta vita af okkur um leið og allt liggur fyrir svo fylgist vel með. Þeir sem vilja fræðast betur um verkefnið og kynna sér upphafið enn frekar geta kíkt á Gefum íslensku séns.
Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
