Fréttir

Kynnisferð til Lettlands og Eistlands 24. – 27. júní 2019

Í lok júní sl. fór átta manna hópur starfsmanna SASS og samstarfsstofnana þeirra í kynnisferð til Lettlands og Eistlands og var hún styrkt af Nordic-Baltic Mobility Programme for Public Administration, en Háskólafélag Suðurlands hefur áður tekið á móti nokkrum hópum frá þessum löndum styrktum af fyrrnefndri áætlun. Flogið var í beinu flugi með Air Baltic til Riga, þar tekinn níu manna bílaleigubíll og ekið til borgarinnar Valmiera. Um er að ræða um 25 þúsund manna bæ þar sem m.a. er lögð áhersla á fjölskylduvænt umhverfi þar sem allt er innan seilingar, borið saman við Riga þar sem umferðin er orðin mörgum til ama. Bæjarstjórinn, Janis Baiks, tók á móti okkur og fór yfir áherslur bæjarins en hann leggur m.a. mikla áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja og jafnframt er háskóli í bænum, Vidzeme University of Applied Sciences. Við fengum einnig kynningu hjá háskólanum. Ekki var laust við að samanburður við Reykjavík og Selfoss kæmi í hugann, sérstaklega varðandi íþróttaáherslur en háskólastarfsemin er miklu meiri hjá þeim.

Um kvöldið var haldið til landamærabæjarins Valga en þar hefur bæ verið skipt upp á landamærum Lettlands og Eistlands, heitir Valka Lettlandsmegin en Valga Eistlandsmegin. Daginn eftir kynnti bæjarstjórinn, Margus Lepik, okkur áform um að þróa nýjan miðbæ sem nær yfir landamærin.  Jafnframt greindi hann okkur frá þeim vandamálum sem fylgja því þegar fækkað hefur verulega í þorpum og bæjum eftir að rússneski herinn hvarf á brautu fyrir tæpum þremur áratugum, auk þess sem margir fluttu til annarra Evrópulanda eftir að landið gekk í Evrópusambandið. Íbúarnir eru núna um tólf þúsund manns. Eignarhald á húsum og lóðum er flókið og taka þarf afstöðu til þess hvað beri að gera upp og varðveita og hvað eigi að rífa. Uppbygging miðbæjarsvæðisins er tilraun til þess að bæta ímynd svæðisins og auka þannig búsetugæðin. Við fórum í áhugaverða vettvangsferð um nýja miðbæinn undir leiðsögn arkitektsins Jiri Tintera.

Um kvöldið var svo haldið til borgarinnar Tartu þar sem um eitt hundrað þúsund manns búa auk mikils fjölda háskólastúdenta, en í borginni er einn af eldri háskólum álfunnar. Tartu var ekki á formlegri dagskrá heimsóknarinnar en samstarfskona okkar úr fyrri verkefnum stýrir þar nú umfangsmikilli uppbyggingu reiðhjólaleigu á vegum borgarinnar. Næsta dag ókum við svo til höfuðborgarinnar Tallinn þaðan sem við flugum heim um Stokkhólm.

Í ágúst næstkomandi tekur Háskólafélagið á móti sjö manna hópi frá þróunarsviði Valmiera þannig að baltnesku tengslin eru enn að styrkjast. Fyrir okkur og samstarfsaðila okkar í SASS hefur þetta samstarf haft jákvæð áhrif, opnað augu okkar fyrir ýmsu og nýst vel til að þétta raðirnar. Fyrir ári síðan fór hópur okkar á lokafund í Valga í Nordplus verkefni Háskólafélagsins, Learning Society, en því var stýrt af sveitarfélaginu Vejle í Danmörku.

Hér má sjá dagskrá heimsóknarinnar.

Nokkrar myndir frá Valmiera, myndasmiður þarlenskur:

 

Hópurinn með bæjarstjóranum í Valmiera. Auk þess gengið í garði skynjunar og berfættta. Að göngu lokinni var boðið upp á fótabað og te!