Þann 23. janúar nk. hefjast Sóknarfæri í nýsköpun sem er átta vikna sunnlenskur viðskiptahraðall þar sem áhersla er lögð á verkefni sem tengjast orku, mat og líftækni, ferðaþjónustu og skapandi greinum. Auglýst var eftir þátttakendum í desember og voru á endanum valin níu teymi til þátttöku.
Þau eru eftirtalin:
Auður allt árið – Umhverfis- og menningarupplifun
Verkefnið snýst um móttöku hópa og viðburðahald í umhverfis- og menningarupplifun í Árborg unnið í samvinnu fyrirtækja og einstaklinga á sviði menningar, lista og umhverfismála.
Bali – sálfræðimeðferð með hestum
Verkefninu er ætlað að tvinna saman sálfræði, hestum, íslenskri náttúru í heilsutengt ferðaþjónustu úrræði. Verkefnið er ungt og framundan er spennandi vöruþróun og markaðsvinna.
Eden
Eden er gagnadrifin ræktun á hágæða grænmeti til heildsölu. Með nútíma tækni ræktum við næringaríkara grænmeti, óháð jarðvarma og spörum 90% CO2 miðað við innflutta vöru. Eden sýnir ábyrgð í orkunýtingu, með nákvæmum umhverfisstýringum og einangruðum ræktunarrýmum drögum við úr orkuþörf ræktunar um 60% ásamt því að auka verulega uppskeru og gæði hennar.
Haustgildi – Menning er matarkista
Haustgildi er haust- og uppskeruhátið sem haldin er á Stokkseyri fyrstu helgi í september. Þar leiða saman hugðarefni sín framleiðendur menningar, matvæla og allrahanda framleiðslu. Samvinna þvert yfir öll svið er undirstaða hátíðarinnar í nútíð og framtíð.
Kambey hlýjuhof – andrými foreldra
Kambey hlýjuhof verður samfélag foreldra í raunheimum sem hlúir að, tengir og fræðir verðandi og núverandi foreldra og gerir þau betur í stakk búin til að huga að sjálfum sér og fjölskyldunni.
Staðbundið – Ull og strá
Rannsókn á möguleikum þess að fullvinna tvo vannýtta sjálfbæra staðbundna efniviði úr nærumhverfi í nýtilegt hráefni til vöru og húsgagnaframleiðslu.
V.I.T
Í mannlegum samskiptum skipta líkamleg tjáning og svipbrigði stóran sess í túlkun skilaboða því er mikilvægt fyrir fyrirtæki að hafa aðgang að þjónustu sem útvegar spjallmenni með þríddar holdgervingi til þess þess að virkja alla þætti mannlegra samskipta. Markmið V.I.T. ehf er að hanna og útfæra slíkan hugbúnað.
Vínekran Vínland
Verkefnið snýst um vínrækt í gróðurhúsum, freyðivínsgerð og vínekru upplifun með leiðsögn. Þar verður einnig að finna veitingastað fyrir einstaklinga, hópa og viðburði og Spa með vinotherapy og vínbaði, ásamt afslökunarlaug í upphituðu gróðurhúsi.
Vínstofa Friðheima
Vínstofa Friðheima er allt í senn kaffihús, vínstofa og viðburðahald fyrir gesti og gangandi ásamt því að vera vinnustofa og fundaraðstaða fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.
Viðskiptahraðallinn er sérhannaður með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Hraðlinum er stýrt af Svövu Björk Ólafsdóttur stofnanda RATA en hún hefur jafnframt haldið utan um viðskiptahraðla á vegum Norðanáttar sem hafa hlotið mikið lof. Á meðan á hraðlinum stendur fá teymin fræðslu, vinnustofur og tækifæri til að efla tengslanetið sitt. Hornsteinn hraðalsins eru svo fundir teymanna með reyndum aðilum úr viðskiptalífinu sem mynda net mentora á Suðurlandi, en þar fá teymin tækifæri til að spegla verkefni sín og fá endurgjöf. Hraðallinn fer fram að mestu leyti á netinu en teymin hittast fjórum sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Suðurlandi. Hraðlinum líkur þann 16. mars með lokaviðburði þar sem teymin kynna verkefnin sín og framhald þeirra.
Samstarfsvettvangurinn Sunnanátt stendur að viðskiptahraðlinum en Sunnanátt er hreyfiafl sem vill skapa kraftmikið umhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem vinna að nýsköpun á Suðurlandi. Að Sunnanátt standa SASS, Háskólafélag Suðurlands, Nýheimar þekkingarsetur, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Kötlusetur, Kirkjubæjarstofa, Markaðsstofa Suðurlands, Orkídea og Ölfus Cluster. Auk þess koma að samstarfinu fjölmargir aðilar, svo sem starfsmenn sveitarfélaga og annað áhugafólk um nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu.
Bakhjarlar Sunnanáttar eru SASS, Lóa nýsköpunarsjóður á landsbyggðinni og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
Hér neðar má sjá myndir af teymunum.