Fréttir

Opinn fundur Starfsmenntaráðs

Fimmtudaginn 3. júní 2010 kl. 9-10:30 heldur Starfsmenntaráð opinn fund sem aðgengilegur verður í fjarfundabúnaði Háskólafélagins í Glaðheimum, Tryggvagötu 36 á Selfossi.  Á fundinum verður annars vegar greint frá starfsemi ráðsins 2009 og hins vegar um áherslur varðandi styrkveitingar til starfsmenntunar 2010, en almennar upplýsingar um þá styrki eru eftirfarandi:

Styrkir vegna starfsmenntunar 2010

Starfsmenntaráð auglýsir  eftir umsóknum um styrki vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu, sbr. lög nr. 19/1992 um starfsmenntun í atvinnulífinu. Til úthlutunar eru 55 milljónir króna.

Eingöngu er tekið við umsóknum á rafrænu formi.

Umsóknir falli í annan hvorn flokkinn:

Flokkur A

Fræðsluverkefni sem stuðla að atvinnusköpun og fela í sér nýsköpun og þróun. Kostur er að um samstarf ólíkra aðila sé að ræða, t.d. frumkvöðla, framleiðenda og seljenda. Umsækjendur geta verið samstarfsklasar, félög og fyrirtæki og aðrir sem stunda sprotastarf.

Flokkur B

Þróunarverkefni  á sviði fræðslu, ráðgjafar eða þjálfunar sem miða að því að vinna gegn neikvæðum áhrifum breytinga í kjölfar efnahagskreppu s.s. vegna breytinga á störfum, stöðu einstaklinga á vinnumarkaði og á starfsemi fyrirtækja og stofnana. Niðurstöður verkefna verða að hafa almenna skírskotun og geta yfirfærst á önnur svið.

Gerð er krafa um samstarf við samtök atvinnurekenda og launafólks við gerð og framkvæmd viðkomandi verkefnis.

Áhersla er lögð á að verkefni sem sótt er um styrk til séu vel undirbúin og umsóknir vandaðar.

Umsóknarfrestur er til 15. ágúst 2010.