Nafn: Ágústa Helgadóttir
Aldur: 39 ára
Starf: Vistfræðingur, votlendissérfræðingur hjá Landi og skógi í Gunnarsholti.
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi: Líparítsvæði landsins, núna er Borgarfjörður eystri í miklu uppáhaldi hjá mér.
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Ég.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Skólastjóri eða bóndi.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Gróðurrannsóknir á Flóaáveitusvæðinu eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum er aðeins farin að safna ryki hjá mér á náttborðinu síðan ég hóf undirbúning á endurheimt votlendis í Flóanum.
Hvað á að gera um helgina? Veiðivötn með góðum félögum.
Áttu gæludýr? / Hundur eða köttur eða eitthvað annað? Hestar.
Kaffi eða te? Kaffi, uppáhellingurinn á Olís er í miklu uppáhaldi.
Hver er þín helsta líkamsrækt? Göngur og ketilbjöllur.
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Sykraðar morgunmatsnúðlur í námsferð líffræðinga í Tælandi.
Sumar, vetur, vor eða haust? Vorið, þegar náttúran lifnar aftur við eftir langan og dimman vetur.
Áttu þér uppáhalds vorfugl? Hrossagaukur. En svo á ég annan uppáhalds vorboða úr jurtaríkinu sem blómstrar með þeim fyrstu blómplanta á vorin, krækilyng.
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlónið) á landinu? Jarðböðin í Mývatnssveit.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndirðu fara? Til Grænlands og Alaska.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni við umhverfið? Með því að nýta hvert tækifæri sem gefst til að ræða og fræða um náttúruvernd, endurheimt vistkerfa og sjálfbæra landnýtingu.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna? Sækast eftir sumarvinnu í faginu, ef það er ekki í boði nálgast sérfræðingana til að fá meiri reynslu og tenginu. Það gerir námið svo miklu skemmtilegra.
Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland?
Mínar fyrstu rannsóknir hófust á örfoka landi Geitasands á Rangárvöllum sem B.s. nemi í tilraunarverkefninu Landbót. Þar var ég að rannsaka frumframvindu krækilyngs, bláberjalyngs og beitilyngs í tilraunareitum með mismunandi uppgræðsluaðferðum. Síðan þá hef ég unnið í fjölbreyttum rannsóknarverkefnum á sviði vistheimtar hjá Landgræðslunni, lengst á áfokssvæðum næst eldvirka gosbeltinu frá hálendi til láglendis Suðurlands.
Í dag, hjá nýrri sameinaðri stofnun, Landi og skógi, starfa ég við rannsóknir á votlendisvistkerfum, áhrifum framræslu og endurheimtar á virkni þeirra. Stærstu votlendissvæði landsins eru á Suðurlandi og fara því rannsóknir okkar að miklu leiti fram þar.
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni?
Hef lengi haft brennandi áhuga á plöntum (sérstaklega mosum), landmótun og jarðfræði.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna?
Að vinna úti í náttúrunni með áhugasömum samstarfsfélögum og hagaðilum í góðu veðri. Hef líka mjög gaman að þróa nýjar lausnir á verkefnum og úrvinnslu gagna með nútímanlegum tæknilausnum til að ná góðum árangri í endurheimt vistkerfa.
Segðu okkur frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli
Þær rannsóknir sem ég er að fást við í dag er að greina virkni, ástand og áföll náttúrunnar með gagnaöflun til að undirbúa bataferlið með endurheimt, mæla árangurinn, virkja hagaðila og fylgja eftir bataferlinu til að geta gripið inn í með aðgerðum ef til þess þarf.
Ný vinna með landeigendum í þátttökuvöktun hófst í sumar þar sem við erum að þróa aðferðafræði við að endurheimta votlendi í samstarfi við landeigendur. Rannsóknin felst í því að mæla ástand mýranna fyrir endurheimt ásamt því að mæla viðmiðunarvistkerfi sem hafa ekki raskast, til að fá vísbendingar um hvernig virkni mýranna var áður, til að setja skýr og mælanleg markmið með endurheimt.
Þar sem mitt sérsvið er gróður og mosagreiningar hef ég verið að rannsaka ástand votlendisvistkerfa út frá tegundasamsetningu plantna, sem er liður í stærri votlendisrannsóknum Lands og skógar. Votlendisvistkerfi eru fjölbreytt á landsvísu og hefur framræsla mismunandi áhrif eftir gerð þeirra. Eftir fyrstu úttekt var áhugavert að sjá hvað votlendismosar virðast næmir fyrir raski og tegundasamsetning þeirra góð vísbending um hnignunarstig mýra.
Hvaða rannsakanda viltu tilnefna fyrir næsta mánuð? Skólafélaga minn úr Öskju hann Jónas Guðnason, jarðfræðingur hjá Landsvirkjun.
Myndir eru úr einkasafni Ágústu, hér sýnir hún lurkalag frá síðasta hlýskeið sem fannst í mýrinni.