Árlegur hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands var haldinn miðvikudaginn 12. febrúar á sal Fjölbrautarskóla Suðurlands. Tónlistarskóli Árnesinga hóf athöfnina með flutningi verksins O Salutaris eftir F. Schubert en þær Karolina Koniczna, Auður Garðarsdóttir og Jónína Eirný Sigurðardóttir sungu við píanóundirleik Esterar Ólafsdóttur tónlistarkennara.
Tveir nemendur hlutu styrk Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands að þessu sinni. Anna Guðrún Þórðardóttir, doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands hlaut styrk fyrir verkefnið „Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum “. Meginmarkmið verkefnisins er að stuðla að þróun byggyrkja sem eru aðlöguð kaldtempruðum umhverfisskilyðrum líkt og á Íslandi. Verkefnið er því mikilvægur hlekkur í eflingu kornræktar og í því að skapa fæðuöryggi hér á Íslandi. Þá fékk Clémence Daigre, doktorsemi við Háskóla Íslands styrk fyrir verkefni sitt sem fjallar um vatnskerfi jökla og spár um það hvernig viðbrögð vatnakerfa skriðjökla eru við hlýnandi loftslag. Rannsóknarsvæðið nær yfir fjóra skriðjökla Vatnajökuls og verður þróað reiknilíkan sem tengir saman vatnsrennsli undir jökli og grunnvatnslíkan sem verður byggt á jarðfræðilegum forsendum. Þar sem Clémence var fjarverandi tók leiðbeinandi hennar, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir við styrknum fyrir hennar hönd.
Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, afhenti styrkina og flutti ávarp en forsetaembættið hefur frá upphafi tekið þátt í hátíðarfundinum. Góður rómur var gerður að erindi frú Höllu þar sem áherslan var lögð á gildi rannsókna og nýsköpunar fyrir litla þjóð eins og okkar.
Einnig kom fyrrum styrkþegi sjóðsins, Anna Selbmann, og sagði frá áhugaverðum rannsóknum sínum um samskipti grindhvala og háhyrninga á hafsvæðum sunnan Íslands og var erindið mjög fróðlegt og skemmtilegt.
Á Hátíðarfundinum voru einnig afhent Menntaverðlaun Suðurlands, en þau eru veitt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Að þessu sinni komu þau í hlut fjölskyldusviðs Árborgar, sem staðið hefur fyrir hagnýtum íslenskunámskeiðum fyrir foreldra barna á grunnskólaaldri með fjölmenningarlegan bakgrunn. Markmið verkefnisins er að bjóða foreldrum grunnskólanema með fjölmenningarlegan bakgrunn ókeypis íslenskunámskeið þar sem þeir kynnast helstu hugtökum og efla orðaforða sem tengist skólastarfi, en rannsóknir sýna að tungumálaörðugleikar geta hindrað þátttöku foreldra í skólastarfi.
Háskólafélag Suðurlands óskar styrkþegum og verðlaunahöfum innilega til hamingju og þakkar fyrir framlag allra þeirra sem komu að hátíðarfundinum með einum eða öðrum hætti.