Dagana 26. – 28. júlí 2017 fór fram úttekt á stöðu mála í Kötlu jarðvangi (Katla UNESCO Global Geopark). Slíkar úttektir eru að jafnaði á fjögurra ára fresti en þar sem Katla fékk svokallað „gult spjald“ í fyrstu úttektinni 2015 varð vottunin þá aðeins til tveggja ára. Að þessu sinni komu úttektaraðilarnir frá Írlandi og Japan, þau Carol Gleeson og Mahito Watanabe. Brynja Davíðsdóttir framkvæmdastjóri jarðvangsins hafði skipulagt ítarlega dagskrá heimsóknarinnar í samvinnu við samstarfsðila jarðvangins og voru móttökur hvarvetna til fyrirmyndar.
Fyrsta daginn var heimsókn í Hvolsskóla þar sem Birna Sigurðardóttir skólastjóri tók á móti hópnum, síðan var tekið hús á Þorsteini Jónssyni sem m.a. sér um að setja upp merkingar og skilti fyrir jarðvanginn auk þess að vera m.a. sérfróður um Drumbabót, eitt jarðvætta (geosite) jarðvangsins. Hádegisverður var snæddur í Eldstó Art Gallery, einu samstarfsfyrirtækja jarðvangsins, ásamt Ísólfi Gylfa Pálmasyni sveitarstjóra og Árnýju Láru Karvelsdóttur markaðs- og kynningarfulltrúa en hún vinnur jafnframt fyrir jarðvanginn í u.þ.b 30% starfshlutfalli. Þá tóku þau Ólafur Eggertsson og Guðný Valberg á móti hópnum í Gestastofunni á Þorvaldseyri, Sverrir Magnússon í Skógasafni og Hákon Ásgeirsson landvörður Umhverfisstofnunar við Skógafoss. Síðan var ekið rakleiðis austur á Þykkvabæjarklaustur til Kristbjargar Hilmarsdóttur þar sem rjómapönnukökur og annað góðgæti beið hópsins auk þess sem hún sýndi hópnum ullarvinnslu og handverk og greindi okkur frá feldfénu sem hún er að rækta. Eva Björk Harðardóttir oddviti og hótelstjóri tók svo á móti hópnum í bílastæðinu í Eldhrauni þar sem unnið er að uppbyggingu vegna ferðamanna en hún er vandasöm þar sem mosinn er einkar viðkvæmur fyrir átroðningi. Dagskrá þessa fyrsta dags lauk svo við Bjarnargarð í Efri-Vík þar sem Hörður Davíðsson tók á móti okkur en hann vinnur nú að því að koma þar upp fræðsluaðstöðu (öskulagabyrgi) þar sem þessu sögulega mannvirki verða gerð skil ásamt eldvirkni, öskulögum og hamfarahlaupum. Hópurinn gisti á Hótel Laka þar sem hópuinn naut einstakrar gestrisni Evu hótelstjóra um kvöldið.
Daginn eftir var fyrst farið í heimsókn í veiðihúsið við Eldvatn í Meðallandi, Eldhraun Guesthouse, en þar reka hjónin Jón og Linda skemmtilegt gistiheimili þar sem m.a. er gert út á sjóbirtingsveiði, norðurljósaferðir og almenna náttúruskoðun. Þá var haldið í Skaftárstofu á Kirkjubæjarklaustri, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem þær Fanney Sverrisdóttir og Jóna Björk Jónsdóttir tóku á móti gestunum. Síðan var haldið í Fjaðrárgljúfur þar sem Ásta Davíðsdóttir landvörður Umhverfisstofnunar tók á móti hópnum og greindi frá viðleitni til að mæta gríðarlegri fjölgun gesta á þessu jarðvætti jarðvangsins. Þá var haldið að Botnum í Meðallandi en þar er fiskeldisstöð sem fyrirtækið Lindarfiskur rekur og þar tóku á móti okkur feðginin Bjarni Jón Finnsson og Drífa Bjarnadóttir líffræðingur ásamt Ásgeiri Magnússyni sveitarstjóra Mýrdalshrepps. Þar snæddum við dýrisindis bleikju úr eldinu og skoðuðum jafnframt eldisaðstöðuna, en þar hefur jafnframt verið komið upp heimarafstöð. Segja má að þessi rekstur minni um margt á verkmenningu og frumkvöðlastarfsemi Bjarna í Hólmi, Eiríks í Svínadal, Sigfúsar á Geirlandi og Einars á Kaldrananesi – svo nefndir séu nokkrir snillingar til sögunnar. Þá var haldið í Kötlusetur í Vík þar sem Berglind Sigmundsdóttir, nýráðinn jarðfræðingur jarðvangsins sýndi drög að nýrri jarðsýningu (Geo Saga) um jarðvanginn. Þá var litið á nýju sýninguna um Skaftfelling og nemendavinnu um jarðvanginn í Víkurskóla. Að því búnu var haldið að Eyrarlandi þar sem við hittum fyrir Æsu frá Farfuglaheimilinu í Norður-Vík, Oddnýju Runólfsdóttur handverkskonu og Gunnar Stein frá fyrirtækinu Made by Iceland, en á Eyrarlandi kynnir hann verkefnið The Perfect Circle sem er um 6 mínútna áhirfamikið myndband sem sýnt er á Eyrarlandi. Eftir af hafa fengið nýbakaðar vöfflur með heimagerðri sultu frá Æsu var ferðinni haldið áfram í Reynisfjöru og síðan að Sólheimajökli þar sem m.a. var skoðað nýtt varúðarskilti og síðan haldið í náttstað í Hótel Fljótshlíð í Smáratúni en í leiðinni voru skoðaðir Rútshellir og Steinahellir en Minjastofnun hefur nýlega sett þil í hellismunnana og nýtt fræðsluskilti við Steinahelli, en þar hafði jarðvangurinn áður komið upp fræðsluskilti.
Síðasta daginn voru tvær heimsóknir. Fyrst tók Björg Árnadóttir á móti okkur í Midgard Adventure á Hvolsvelli en þar er um að ræða enn eitt dæmið um lofsverða frumkvöðlastarfsemi þar sem þekking heimamanna er í lykilhlutverki. Þá var haldið í nýju eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöðina Lava þar sem Ásbjörn Björgvinsson og Hulda Kristjánsdóttir tóku á móti hópnum og buðu honum jafnframt í hádegisverð. Gestirnir áttu vart orð til að lýsa gæðum sýningarinnar og aðspurður sagði t.d. japanski sérfræðingurinn að hún stæði sambærilegum japönskum sýningum miklu framar að gæðum. Eftir hádegið var síðan haldið í Sagnagarð í Gunnarsholti þar sem Davíð Arnar Stefánsson sagði frá evrópsku göngustígaverkefni sem Landgræðslan tekur þátt í með aðkomu jarðvangsins. Loks var fundað með úttektaraðilunum og farið yfir löng og ítarleg sjálfsmatsgögn sem jarðvangurinn hafði sent frá sér í byrjun ársins ásamt skýrslu um viðbrögð við ábendingum frá úttektinni 2015. Yfirferðin gekk vel, nú ganga úttektaraðilarnir frá skýrslu til UNESCO Global Geoparks Council og verður hún tekin til afreiðslu á fundi ráðsins í Kína síðari hluta septembermánaðar. – Hópurinn átti svo notalega samverustund hjá þeim Sigurði og Kristínu konu hans þar sem hún reiddi fram dýrindis fiskisúpu, og þau Carol og Mahito flugu svo utan í bítið daginn eftir.
Brynja Davíðsdóttir og Hörður Bjarni Harðarson, nýráðinn jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi, fylgdu hópnum allan tímann auk Sigurðar Sigursveinssonar framkvæmdastjóra Háskólafélags Suðurlands. Háskólafélagið átti frumkvæði að stofnun jarðvangsins og sá að mestu um rekstur hans frá stofnun hans í nóvember 2010 til ársins 2015. Ljóst er að styrkur ríkisins til jarðvangsins næstu fimm árin mun skipta sköpum við að viðhalda vottun jarðvangsins, en styrkurinn var byggður á tillögum starfshóps sem Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi forsætisráðherra skipaði sl. sumar og var lögð fyrir ríkisstjórn sl. haust.
Glæra um geoskóla / Hvolsskóla.
Samstarfsskírteini Hvolsskóla og jarðvangsins.
Þorsteinn útskýrir hraunbombu fyrir Carol og Herði.
Samstarfsskírteini Eldstóar og jarðvangsins.
Samstarfsskírteini Skógasafns og jarðvangsins.
Carol, Mahito, Brynja, Sigurður og Hörður.
Nonna- og Brynjuhús, Þykkvabæjarklaustri.
Eva Björk, Carol og Mahito í Eldhrauni.
Við fyrirhugaða sýningaraðstððu gervigíga í Efri-Vík.
Samsstarfssamingur Hótels Laka og jarðvangsins.
Við Eldvatn í Meðallandi.
Ásgeir, Drífa og Bjarni Jón í Botnum.
Í Kötlusetri.
Samstarfskírteini Grunnskólans í Vík og jarðvangsins.
Með umhverfisráðherra við sundlaugina í Vík.
Við Sólheimajökul.
Við Rútshelli.
Við Steinahelli.
Björg Árnadóttir í Midgard Adventures.
Með Davíð Arnari Stefánssyni í Sagnagarði í Gunnarsholti
Carol og Mahito að aflokinni krefjandi úttekt!