Fimmtudagurinn 14. janúar 2016 var hátíðisdagur í menntamálum á Suðurlandi. Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, gerði sér þá ferð austur í Flóa, fjórtánda árið í röð, til að afhenda styrki úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands. Styrkþegarnir voru að þessu sinni þrír. Ásdís Benediktsdóttir fékk styrk vegna doktorsverkefnis um notkun á svokölluðu umhverfissuði til að kanna innri gerð Eyjafjallajökuls og er þess vænst að rannsóknin leiði til nýrrar aðferðar við vöktun eldfjalla. Haukur Ingvarsson fékk styrk vegna doktorsverkefnis um áhrif bandaríska skáldsagnahöfundarins William Faulkner á Íslandi og er í henni sérstaklega gerð grein fyrir áhrifum hans á Guðmund Daníelsson en hann kynntist verkum Faulkner á Bókasafninu á Ísafirði áður en Guðmundur fluttist á Selfoss. Loks fékk Ragnheiður Hergeirsdóttir styrk vegna meistaraverkefnis um viðbragðsáætlanir sveitarfélaga á Suðurlandi við samfélagsáföllum og hvernig nýta megi félagsráðgjöf til að efla viðnámsþrótt samfélaga.
Mynd: Verðlaunahafar ásamt forseta Íslands og Steingerði Hreinsdóttur formanni sjóðsstjórnar.
Fjölmörg fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir eru bakhjarlar Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands en Fræðslunetið og Háskólafélagið sjá um rekstur sjóðsins.
Þá voru við þessa athöfn afhent Menntaverðlaun Suðurlands, en Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) standa að verðlaununum að fengnum tilnefningum frá almenningi og öðrum aðilum á Suðurlandi, og voru verðlaunin nú veitt í áttunda sinn. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Sérdeildar Suðurlands, Setursins, sem er til húsa í Sunnulækjarskóla á Suðurlandi. Kristín Björk Jóhannsdóttir deildarstjóri veitti verðlaununum viðtöku en Setrið hefur eflt starfsemi sína á undanförunum árum og þykir standa framarlega á landsvísu á sínu sviði. Setrið veitir nemendum með sérþarfir fjölbreytt nám í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra.
Mynd: Kristín Björk með forseta Íslands og Gunnari Þorgeirssyni formanni SASS
Athöfnin fór fram samkvæmt venju í húsakynnum Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og sóttu hana um 60 manns.