Guðný Rut rannsakar lífverur sem flestir vilja ekki vita af í daglegu amstri.
Nafn: Guðný Rut Pálsdóttir
Aldur: 40
Starf: Sníkjudýrafræðingur á Tilraunastöðinni á Keldum
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi: Æskuslóðirnar, Laugarás í Biskupstungum
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Ég sjálf
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég man ekki til þess að hafa haft neitt sérstakt í huga, en hef alltaf verið heilluð af náttúrunni og öllu því sem henni fylgir
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Enga í augnablikinu
Hvað á að gera um helgina? Ætli ég klári ekki skattaskýrsluna með morgunbollanum. Fari svo í vorverkin, sá fyrir chiliplöntum og öðru. Tek svo góða afslöppun í nuddpotti og sánu. Æsispennandi helgi framundan!
Áttu gæludýr? Ekki í augnablikinu
Kaffi eða te? Kaffi
Hver er þín helsta líkamsrækt? Yfir vetrartímann eru það lóðalyftingar og annað sprikl með frábæru fólki en þegar vorar færi ég mig út á hjólið og göngutúra á fjöll
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Steikt skordýr og krókódíll
Sumar, vetur, vor eða haust? Vorið, þegar allt er að vakna til lífsins og farfuglarnir mæta í stríðum staumum til landsins

Mynd: Ólafur Karl Nielsen
Áttu þér uppáhalds vorfugl? Þar sem vorið er mín uppáhalds árstíð eru allir farfuglarnir uppáhalds, má ekki segja svoleiðis? Síðustu árin hefur mér þótt vænna um vorboðann hrjúfa (sílamáfinn) og skilst mér að hann sé mættur á Tjörnina í Reykjavík nú þegar. Söngur skógarþrastanna dregur mig aftur í heimahagana þó þeir syngi öðruvísi í borginni en í Laugarási. Að lokum þykir mér voðalega vænt um maríuerluna. Á ítölsku kallast hún hvíta ballerínan en það er einmitt svo gaman að fylgjast með hana dansa í loftinu á eftir hinum ýmsu skordýrum
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlónið) á landinu? Á enga eina uppáhalds en ætla að segja Grafarvogslaug þar sem þar er að finna bæði innrauða sánu og góðan nuddpott.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndirðu fara? Er með nokkra staði í huga þar sem náttúran er enn sem mest ósnortin og enginn massa túrismi. Það eru sem betur fer margir svoleiðis staðir enn til.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni við umhverfið? Flokka ruslið mitt, fer flestra minna ferða á hjóli á sumrin og týni yfirleitt upp rusl ef það verður á leið minni, til dæmis í fjörum eða uppi á fjöllum. Gamlir hlutir með sögu heilla og ég reyni oft að kaupa matvæli sem ég veit að hafa ekki ferðast yfir hálfan hnöttinn með flugi.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna? Ég tek heilshugar undir það sem Erpur Snær sagði í síðasta mánuði. Fylgdu hjartanu. Brennandi áhugi á starfinu skilar manni yfirleitt langt. Það á að vera gaman að mæta í vinnuna en um leið og það verður ekki gaman þá verður svo leiðinlegt.

Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland? Rætur mínar á Suðurlandsundirlendinu er fastar þó að rannsóknirnar eigi rætur mun víðar
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni? Sníkjudýrin heilluðu mig algerlega, svo mikið að ég fór til útlanda í tvö ár til að læra meira. Sníkjudýr spanna allt frá einfrumungum upp í flóknari lífverur. Skúli afi minn hafði mikinn áhuga á því sem ég starfaði við, ég reyndi að útskýra fyrir honum á eins einfaldan hátt og ég gat. Alltaf svaraði hann með spurningunni; „Er lús þá svona sníkjudýr?“ Hann var með þetta alveg á hreinu.
Orðabókarskilgreiningin á sníkjudýri er lífvera sem lifir í, á eða með annarri lífveru (hýsli) með það að markmiði að sækja sér næringu, vaxa eða fjölga sér, oft með beinum eða óbeinum skaða fyrir hýsilinn. Markmiðið er aldrei að valda dauða heldur einungis að komast af. Ótrúlegar þróunarfræðilegar aðlaganir í gegnum milljónir ára, misflóknir lífsferlar sem er oft erfitt að ímynda sér hvernig eigi að geta gengið upp.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna? Fjölbreytnin er það sem heldur mér gangandi. Kann jafn vel við mig bæði utandyra í felti og inni á rannsóknastofu. Það versta sem ég veit er að staðna einhverstaðar, fastur í rútínu með litla sem engar áskoranir. Það er svo gefandi að leita leiða til að fá svör við spurningum sem hafa mögulega ekki verið kannaðar. Beita gagnrýnni hugsun og hugsa út fyrir boxið. Yfirleitt er rannsóknarvinna teymisvinna og þá er svo gott að eiga góða samstarfsfélaga til að kasta hugmyndum á milli. Fyrsta alvöru feltferðin mín var ári eftir að ég hóf störf sem sníkjudýrafræðingur. Ég fékk að vera með í seinustu söfnunarferðinni norður á Mývatn í 12 ára löngu verkefni um heilbrigði rjúpunnar. Langir dagar en ofsalega skemmtilegir þar sem ég kynntist mörgu frábæru fólki og öðlaðist dýrmæta reynslu. Er ævinlega þakkát fyrir þá reynslu og síðan þá hefur rjúpan átt sérstakan sess hjá mér.
Segðu okkar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli.
Sem stendur vinn ég að lokaskýrslu fyrir styrkverkefni þar sem við erum að skoða hvaða tegundir holdmæra (Sarcocystis spp.) finnist í íslenskum nautgripum. Verkefnið er styrkt af Þróunarfé búgreina. Það er vitað að holdmærur finnist í íslenskum nautgripum en hingað til hefur ekki verið kannað í þaula hvaða tegundir er um að ræða. Aðeins ein tegund holdmæra hefur þegar verið staðfest hér á landi, en það er S. cruzi þar sem lokahýsill er hundur.
Holdmærur eru einfrumungar sem má finna í hinum ýmsu dýrategundum um allan heim. Þekktar eru sjö tegundir holdmæra í nautgripum í heiminum. Helstu lokahýslar holdmæra í nautgripum eru hundar, kettir og mannfólk. Tegundir holdmæra eru mjög hýsilsérhæfðar og því geta hundar til dæmis ekki fengið í sig þær tegundir holdmæra sem finnast í köttum og öfugt.
Lífsferillinn er einfaldur og þarf aðeins tvo hýsla, millihýsil og lokahýsil. Í okkar tilfelli er millihýsillinn nautgripur en lokahýsillinn er jafnan rándýr eða alæta sem smitast við að éta hráa, smitaða vöðva eða líffæri nautgripsins. Í þarmaslímhúð lokahýsils fjölgar sníkjudýrið sér með kynæxlun og losna þolhjúpar út í umhverfið með saur. Nautgripurinn smitast við að innbyrða þolhjúpa úr saurmengaðri fæðu eða vatni. Sníkjudýrið myndar hvítleita þolhjúpa (holdmærur) í blóðríkum vöðvum eða líffærum. Áhrif holdmæra á nautgripi geta verið misjöfn en tegundirnar eru mis-meinvirkar. Áhrif á lokahýsla eru yfirleitt mjög léttvæg eða jafnvel engin.

Sjáist holdmærur í nautgripaskrokkum í sláturhúsi fer það eftir umfangi smits hver viðbrögðin verða. Geta viðbrögðin verið allt frá því að stakir líkamspartar eða heilu skrokkarnir séu settir í frysti eða jafnvel flokkaðir sem óhæfir til manneldis og þeim fargað. Þessi viðbrögð eru jafnan viðhöfð þar sem ekki liggur fyrir vitneskja um hvaða tegundir holdmæra finnist í nautgripum hérlendis. Frysting drepur holdmærur og eru þær því ekki smitandi eftir frystingu.
Vitneskjan um hvaða tegundir holdmæra finnast í íslenskum nautgripum gefur okkur mikilvægt vopn í baráttunni gegn smiti. Ef tegundin er þekkt, vitum við jafnframt af hvaða dýrategund nautgripirnir smitast. Það gefur okkur tækifæri til að rjúfa lífsferilinn með því að koma í veg fyrir að nautgripir innbyrði fæðu eða vatn sem er mengað með saur smitaðs lokahýsils. Að sama skapi er hægt að koma í veg fyrir að gefa hundum eða köttum hráa vöðva eða líffæri úr smituðum nautgripum.
Skil á lokaskýrslu fyrir verkefnið er nú í lok mánaðar svo ég fer ekki nánar út í niðurstöðurnar að svo komnu máli.
Karl Skírnisson tók forsíðumyndina af Gyðnýju við hefðbundin rannsóknarstörf.