Í samþykktum Háskólafélags Suðurlands kemur m.a. fram að félaginu er ætlað að reka Þekkingarnet á Suðurlandi sem m.a. eigi að samhæfa og styrkja rannsóknir í fjórðungnum með því að auka samvinnu rannsóknarstofnana og fyrirtækja. Félagið stóð fyrir ráðstefnu haustið 2009 um rannsóknir á Suðurlandi og árið eftir stóð félagið fyrir fjölsóttri ráðstefnu á Selfossi um landnotkun í samvinnu við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi. Það var því kærkomið tækifæri fyrir félagið að henda á lofti eina af tillögum Sóknaráætlunar Suðurlands um að koma nú á ársfundum rannsókna og fræða á Suðurlandi.
Ákveðið var að á þessum fyrsta ársfundi yrði reynt að gefa yfirlit um rannsóknir helstu stofnana í landshlutanum. Það bíður svo síðari funda að fá innsýn í rannsóknir fyrirtækja og einstaklinga í héraðinu.
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri setti ársfundinn og bauð fundarmenn velkomna í Gunnarsholt en fól síðan Sigurði Sigursveinssyni framkvæmdastjóra Háskólafélagsins fundarstjón.
Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands
Fyrsta erindi dagsins, Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði og uppbygging rannsóknartengds framhaldsnáms á Selfossi, flutti dr. Benedikt Halldórsson rannsóknarprófessor og forstöðumaður rannsókna við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi í jarðskjálftaverkfræði (RHÍJ). Hann gerði grein fyrir starfsemi miðstöðvarinnar sem hefur vaxið og dafnað frá því að hún var sett á stofn árið 2000. Miðstöðin hefur haft náið samstarf við Háskólafélag Suðurlands, einkum í sambandi við alþjóðleg sumarnámskeið sem haldin hafa verið árlega á Selfossi síðan 2011. Litið hefur verið á þau sem þarfagreiningu í tengslum við áform um alþjóðlegt meistara- og doktorsnám á Selfossi á sviði áhættustjórnunar með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir samfélög á jarðskjálfta- og eldfjallasvæðum. Verkefnið hefur notið öflugs stuðnings frá SASS og unnið er að fjármögnun fyrir námsmenn úr evrópskum sjóðum. Ef allt gengur eftir gæti heildstætt og staðbundið nám hafist á Selfossi haustið 2016.
Dr. Benedikt Halldórsson rannsóknarprófessor og forstöðumaður rannsókna við RHÍJ
Magnús Jóhannsson, annar tveggja starfsmanna Veiðimálastofnunar á Suðurlandi, flutti næsta erindi, Af rannsóknum Veiðimálastofnunar, og fjallaði þar um rannsóknir stofnunarinnar með sérstakri áherslu á Suðurland. Meginverkefni stofnunarinnar eru rannsóknir, aðallega vöktunarrannsóknir á ferskvatnsfiskum og lífríki þeirra. Alls starfa 19 manns hjá stofnuninni en hún er með starfsstöðvar á Hvammstanga, Hvanneyri og Reykjavík auk Selfoss. Á Suðurlandi er fyrst og fremst um að ræða rannsóknir á fiskstofnun á vatnasvæði Ölfusár-Hvítárog Þjórsár en einnig á stofnum í Veiðivötnum og í Grenlæk auk lífríkisrannsókna í Sogi.
Magnús Jóhannsson fiskifræðingur á Veiðimálastofnun á Selfossi
Þriðja erindið, Eldgosavá og landgræðsla, flutti dr. Guðmundur Halldórsson rannsóknarstjóri Landgræðslunnar. Í máli hans kom m.a. fram að verkefni stofnunarinnar felast að miklu leyti í að endurheimta glötuð landgæði þar sem eldgos hafa gjarnan komið við sögu. Rannsóknir hafa sýnt að rýr gróður þolir einungis 2-5 cm öskufall en hávaxnari gróður, kjarr- og skóglendi, þolir mun meira öskufall og hindrar frekari dreifingu hennar. Hekluskógaverkefnið tekur mið af þessu, það fór af stað 2007 og miðar að því að byggja upp vistkerfi sem standist öskufall, stöðvi frekari dreifingu ösku og byggi upp landrænar auðlindir. Hér þarf að beita langtímahugsun, horfa til áratuga og alda. Jafnframt greindi Guðmundur frá norrænu verkefni, Vistheimt gegn náttúrvá, sem Landgræðslan leiðir en um 20 stofnanir á öllum Norðurlöndunum koma að.
Dr. Guðmundur Halldórsson rannsóknarstjóri Landgræðslu ríkisins
Fjórða erindi dagsins, Rannsóknir á sviði íþrótta- og heilsufræði á Laugarvatni, flutti dr. Erlingur Jóhannsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á Laugarvatni. Nemendum í grunnnámi hefur fækkað í kjölfar lengingar kennaranámsins til starfsréttinda en fjöldi nemenda er í meistara- og doktorsnámi og njóta þar með góðs af fjölmörgum stórum rannsóknarstyrkjum sem fengist hafa á þessu sviði. M.a. er um að ræða ýmis konar íhlutunar- og langtímarannsóknir; á atgervi ungra Íslendinga, lífsstíl 7-9 ára barna, hreyfingu og heilsu fatlaðra barna, líkams- og heilsurækt eldri borgara og heilsueflingu í framhaldsskólum. Í máli Erlings kom m.a. fram að efla þyrfti stuðning Sunnlendinga við rannsóknir á þessu sviði.
Dr. Erlingur Jóhannsson prófessor við Háskóla Íslands á Laugarvatni
Fimmta erindið á ársfundinum var tvískipt, annars vegar Stutt yfirlit um starfsemi Náttúrustofu Suðausturlands sem Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður Náttúrustofunnar fylgdi úr hlaði. Þar lýsti hún fjölmörgum verkefnum stofunnar þó hún hafi einungis starfað í rúmt ár. Má þar t.d. nefna gerð nýstárlegs Náttúrustígs við Hornafjörð, stjörnuathugunarstöð í Fjárhúsavík og rannsóknir á gróðurleifum á Breiðamerkursandi.
Kristín Hermannsdóttir veðurfræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands
Hins vegar var erindið Breiðamerkurjökull og Breiðamerkursandur – samspil jökuls og sands frá lokum 19. aldar, en það flutti Snævarr Guðmundsson sviðsstjóri á Náttúrustofu Suðausturlands. Í fyrirlestrinum greindi hann frá því hvernig ný tækni, LiDAR lasermælingar, af íslenskum jöklum hefur gert mögulegt að endurgera rúmmynd jökla í fyrri stöðu. Komið hefur í ljós að Breiðamerkurjökull hefur hopað um 5 km að meðaltali frá lokum 19. aldar, flatarmál hans minnkað um 114 km2 og að rúmmálsrýrnun samsvari því að 2003 tuttugu feta gámar (33m3) af vatni hafi verið fjarlægðir á hverri klukkustund undanfarin 120 ár!
Snævarr Guðmundsson sviðsstjóri og náttúrulandfræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands
Síðasta innleggið fyrir hádegi flutti dr. Erpur Snær Hansen sviðsstjóri á Náttúrustofu Suðurlands, Lotubundnar sjávarhita- og vistbyltingar við Íslandsstrendur: Tengsl hitastýrðra lífslíka og hrygningar sandsíla við viðkomu lunda. Í erindinu kom fram að þekkt er fyrirbærið AMO: Atlantic Multidecadal Oscillation en með því er átt við undirliggjandi sjávarhitasveiflur með u.þ.b. 70 ára sveiflutíðni. Erpur greindi frá rannsóknum sínum þar sem leitað var að tölfræðilega marktækum vistbyltingum með því að skoða langtímagögn um yfirborðshita sjávar, lundaveiði og stærðarþröskuld sandsíla að vetri (Lth). Grunnefnaskipti fiska fylgja líkamsstærð og aukast með sjárvarhita sem sameiginlega ákvarða stærðarþröskuld fyrir vetrardvala (Lth), en fiskar undir þröskuldinum eiga litlar lífslíkur án þess að éta. Þessar rannsóknir standa enn yfir en ljóst er að hækkun stærðarþröskuldsins fer saman með minnkandi lundaveiði og að á hlýskeiðum er lægra hlutfall sandsíla yfir stærðarþröskuldinum en á kuldaskeiðum snýst þetta við, þ.e. að þá er hærra hlutfall síla yfir stærðarþröskuldinum.
Að afloknum málsverði í hinu víðfræga mötuneyti í Gunnarsholti var haldið í Akurhól þar sem skoðuð var glæsileg gistiaðstaða sem nemendur Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna nýta sér en auk þess er gert ráð fyrir að hún nýtist til að koma á alþjóðlegu þekkingarsetri í Gunnarsholti varðandi landeyðingu og endurheimt landgæða, en jafnframt er ljóst að í Gunnarsholti er komin kjöraðstaða til hvers konar vinnufunda og málþinga fræðimanna.
Dr. Magnús H. Jóhannsson grasafræðingur og sviðsstjóri Landgræðslunnar kynnir aðstöðuna í Akurhóli
Fyrsta innleggið eftir hádegishléið hélt dr. Jóhannes Sveinbjörnsson deildarforseti í Landbúnaðarháskóla Íslands: Nokkur dæmi um rannsóknir Landbúnaðarháskóla Íslands á Suðurlandi: korn, kýr, tré, tómatar, grös, belgjurtir. Eins og titillinn ber með sér er um fjölbreyttar rannsóknir að ræða. Suðurland er vagga kornræktar á landinu, bæði vegna hagstæðra skilyrða en einnig vegna öflugs tilraunastarfs. Á tilraunastöðinni á Stóra-Ármóti eru m.a. stundaðar rannsóknir á átgetu mjólkurkúa en á starfsstöð skólans á Reykjum í Ölfusi fara nú fram umfangsmiklar alþjóðlegar rannsóknir á áhrifum jarðvegshlýnunar á gróður eftir Suðurlandsskjálftann 2008. Jóhannes greindi einnig frá fleiri rannsóknum, t.d. á stuttlotuskógrækt með alaskaösp til framleiðslu á viðarkurli fyrir járnblendiiðnaðinn, tómatatilraunum á Reykjum í Ölfusi og kynbótum á nytjaplöntum.
Dr. Jóhannes Sveinbjörnsson fóðurfræðingur og deildarforseti Landbúnaðarháskóla Íslands
Næsta fyrirlestur hélt Ingunn Jónsdóttir en hún er sameiginlegur starfsmaður Matís og Háskólafélags Suðurlands. Erindi Ingunnar nefndist Nýsköpun í námi. Alkunna er að Suðurland er matarkista landsins, hvort sem talað er um kjöt, fisk, mjólk, korn eða grænmeti. Þá eru öflug matvælafyriræki í héraðinu en í ljós hefur komið að efla þarf menntastigið á þessu sviði atvinnulífsins. Eftir náið samráð við nokkur lykilfyrirtæki var hrundið af stað eins vetrar diplómunámi með starfi sl. haust með áherslu á nýsköpun og stjórnun tengd matvælaframleiðslu. Fléttað er saman námi á vinnustöðunum og kennslu í greinum eins og stjórnun og samskiptum, nýsköpun, matvælafræði, markaðsfræði og framleiðslu- og vörustjórnun. Námið fer mjög vel af stað og nú þegar er farið að undirbúa sambærilega nálgun við námsframboð fyrir ferðaþjónustuna.
Ingunn Jónsdóttir vöruhönnuður (lengst til vinstri) og starfsmaður Háskólafélags Suðurlands og Matís
Páll Marvin Jónsson dýrafræðingur og forstöðumaður Þekkingarseturs Vestmannaeyja flutti næsta fyrirlestur: Rannsókna- og fræðastarf í Eyjum 1994-2014. Fram kom í erindi hans að 1994 var stofnað fyrsta fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni og má segja það hafi orðið fyrirmynd annarra setra á landsbyggðinni. Smám saman fjölgaði stofnunum í setrinu en 2008 var Þekkingarsetur Vestmannaeyja formlega stofnað sem sjálfseignarstofnun. Páll greindi frá fjölmörgum verkefnum sem unnið hefur verið að í Eyjum á undanförnum árum og beindi í því sambandi sjónum að staðbundnum áhrifum setursins í Eyjum og mikilvægi þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni.
Erindi Páls Marvins og Erps Snæs voru flutt með hjálp Skype þar sem ófært var þennan dag í Landeyjahöfn.
Næstsíðasta erindi ársfundarins flutti dr. Tómas Grétar Gunnarsson forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi og nefndist það Hvað er sjálfbær landnotkun? Í erindinu sýndi Tómas ýmis dæmi um ólíka landnotkun og greindi í því sambandi frá áhugaverðum niðurstöðum úr meistaraverkefni Elke Wald þar sem fram kom að manngert yfirborð hefur aukist miklu hraðar á undanförnum árum á Íslandi borið saman við önnur Evrópulönd, og aukningin er langmest á Suðurlandi. Hættumerki slíkra breytinga felast m.a. í því að þjónustu vistkerfa er ógnað. Sjálfbær landnotkun felur í sér auðlindanýtingu sem gengur ekki á undirstöðuvirkni vistkerfa. Að finna hversu mikið land – hvar – og hvernig megi nýta án þess að spilla lífsnauðsynlegum náttúrulegum ferlum er og verður snúið. Í því sambandi er varúðarreglan mikilvæg, sérstaklega í ljósi þess að meiri þekkingar er þörf á flestum sviðum og meira samstarfi á öllum stigum skipulags og stefnumótunar.
Dr. Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur og forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi
Síðasta innleggið á ársfundinum kom frá dr. Þorvarði Árnasyni forstöðumanni Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Hornafirði: Á bjargbrúninni – þekkingarstarf sem undirstaða sjálfbærrar byggðaþróunar. Fram kom að kallað hefði verið eftir þátttöku þekkingarstofnana í hagnýtum verkefnum en skilningur á hlutverki stofnananna í slíkum verkefnum væri takmarkaður og fjármögnun þeirra hefði ekki tekið mið af þessu nýja hlutverki. Stefnumótun hins opinbera gerði ráð fyrir aðkomu þekkingarsetra að þróun og nýsköpun, sbr. kenningar um svokallað Triple Helix samstarf fyrirtækja, háskóla og stjórnvalda. Fjárveitingar fylgdu þó ekki til þekkingarsetranna, m.a. vegna þess að rannsóknir heyrðu undir annað ráðuneyti en atvinnuþróun og nýsköpun. Lítill skilningur væri á rannsóknum í atvinnuþróunar- og fyrirtækjageiranum en einnig lítill skilningur á þróun og nýsköpun hjá (akademískum) þekkingarsetrum.
Dr. Þorvarður Árnason umhverfis- og náttúrufræðingur og forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Hornafirði
Dagskrá þessa vel heppnaða ársfundar lauk með heimsókn í Sagnagarð, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslunnar þar sem Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri tók á móti hópnum og kynnti sýninguna. og vinnuaðstöðu í húsinu Sigurður Sigursveinsson sleit svo ársfundinum og var mál manna að þessir ársfundir væru komnir til að vera, m.a. til auka tengsl milli stofnana á Suðurlandi og við sveitarfélögin í héraðinu.
Myndirnar tóku þeir Áskell Þórisson og Sigurður Sigursveinsson